154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

skaðaminnkandi úrræði fyrir fólk með fíknivanda.

[15:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þingmanns sem fór hér vel yfir hugmyndafræði skaðaminnkunar og ég ætla ekki að hafa það eftir. Við deilum alveg þeirri skoðun að við þurfum að gera meira á þessu sviði. Ég vil meina að við höfum þegar brugðist við með frekari úrræðum. Við höfum tekið höndum saman með vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar, til að mynda í þessu tilviki varðandi þá skjólstæðinga sem nutu atbeina læknisins, sem hv. þingmaður fór yfir, og við höfum verið að ná samningum við SÁÁ og LSH tekur jafnframt við fjölmörgum í viðhaldsmeðferð. Frú Ragnheiður sinnir sínum skjólstæðingum og við erum að vinna að nýju úrræði með viðbótarfjármagni með Matthildi skaðaminnkun. Við erum að opna neyslurými í Reykjavík. Það raungerist á næstu vikum. Við erum að fjölga meðferðarplássum og taka höndum saman með Krýsuvík og síðan er viðbótarfjármögnun til Hlaðgerðarkots. (Forseti hringir.) Það eru fjölmörg önnur úrræði sem eru samhliða á teikniborðinu fyrir utan (Forseti hringir.) þá stefnumótun og aðgerðir sem henni munu fylgja frá þessum skaðaminnkunarhópi.